top of page
ARFURINN
-
Um hvað snýst ARFURINN?ARFURINN er lokaverkefni mitt í meistaranámi í söng- og hljóðfærakennslu við Listaháskóla Íslands. Með verkefninu sameina ég þrjú hugðarefni mín; íslenskan þjóðlagaarf, skapandi starf í tónlistarnámi og strengjakennslu. Verkefnið samanstendur af sex sveigjanlegum útsetningum á íslenskum þjóðlögum fyrir samspil strengjanemenda á grunnstigi og fræðilegri greinargerð þar sem ég geri grein fyrir fræðilegum bakgrunni verkefnisins og sjálfu vinnuferlinu. Útsetningarnar eru allar eins uppbyggðar. Hverri laglínu fylgja þrjár fylgiraddir á mismunandi erfiðleikastigi sem henta allt frá byrjendum til nemenda sem lokið hafa grunnstigi. Tveimur útsetninganna fylgja spunaraddir með tónefni. Lagavalið er fjölbreytt, bæði er þar að finna þekkt og vinsæl þjóðlög sem sungin eru í leik- og grunnskólum og eins lög sem nemendur þekkja síður. ARFINUM er ætlað að stuðla að varðveislu og miðlun menningararfsins, auka framboð á þjóðlagatendu námsefni fyrir strengjanemendur á grunnstigi og kynna nemendur og kennara fyrir þeim möguleikum sem felast í íslenskri þjóðlagatónlist.
-
Hvers vegna er verkefnið byggt á íslenskum þjóðlögum?Íslenskur þjóðlagaarfur er sameign okkar allra. Þjóðlögin gefa okkur persónulega og lifandi innsýn inn í fortíðina, rætur okkar og söguna sem mótað hefur sjálfsmynd okkar sem þjóð. Hljóðheimur þjóðlaganna, með sínum fornu tóntegundum, samstígu fimmundum og taktskiptum er um margt einstakur í samfélagi þjóðanna og býður upp á mikla möguleika í skapandi tónlistarkennslu. Íslensk þjóðlög henta vel til tónlistarkennslu, tónsvið þeirra er fremur lítið og takturinn byggir á texta laganna. Auðvelt er að leika lögin á hljóðfæri og nota þau til þess að kynna hugtök og byggja upp færni meðal nemenda.
-
Á hvaða kennslufræði byggir ARFURINN?Útsetningarnar eru gerðar með hliðsjón af kennsluaðferð Kodálys og skyldum kennsluaðferðum í hljóðfærakennslu. Gert er ráð fyrir því að nemendur læri að syngja lögin áður en þau eru spiluð og tekist er á við nokkur tónlistarleg/tæknileg hugtök í hverju lagi, þar á meðal spuna en tónefni fyrir spunaraddir fylgir tveimur útsetninganna.
-
Hentar ARFURINN strengjanemendum á öllum stigum?Útsetningarnar í ARFINUM eru skrifaðar í hentugum tóntegundum fyrir strengi. Laglínan er miserfið eftir lögum en flestir nemendur ættu að ráða við auðveldustu lögin eftir 1,5-2 ára nám. Fylgiraddirnar þrjár eru á mismunandi erfiðleikastigi sem henta allt frá byrjendum til nemenda sem lokið hafa grunnstigi. Allar raddir eru umskrifaðar fyrir fiðlu, víólu, selló og bassa og því getur hver nemandi fengið rödd við sitt hæfi. Með því móti er hægt að laga útsetninguna að þörfum ólíkra nemendahópa miðað við getustig, nemendafjölda og hljóðfærasamsetningu hverju sinni.
-
Þarf fullskipaða hljómsveit til að spila úr ARFINUM?Alls ekki! Útsetningarnar eru þannig skrifaðar að laglínuna má leika með einni eða tveimur fylgiröddum, allt eftir hentugleikum. Heildarútkoman verður alltaf áheyrileg.
-
Má nota ARFINN fyrir blandað samspil?Hægt er að nota útsetningarnar með öllum C hljóðfærum sem deila tónsviði með strengjahljóðfærum, til dæmis gítar, þverflautu, blokkflautu, óbó, fagott, básúnu og túbu. Tónflytja þarf fyrir önnur hljóðfæri. Athugið þó að mikið af tækninni sem kemur fyrir í útsetningunum er bundin við strengjahljóðfæri og hana þarf að staðfæra ef útsetningarnar eru notaðar fyrir blandað samspil. Öllum útsetningunum fylgir raddskrá með texta laganna og því er hægt um vik að flytja útsetningarnar með einsöng eða kór.
-
Hvað fylgir hverri útsetningu í ARFINUM?Hverri útsetningu fylgir: Upprunalega lagið á nótum með texta Saga lagsins Kennsluleiðbeiningar með upplýsingum um kennslufræðileg markmið hverrar útsetningar, tillögur að æfingum og upphitun og möguleg tilbrigði í flutningi Tvær raddskrár (partitúrar) á pdf formi, ein einfölduð í G lykli og önnur heil Fjórar raddir fyrir hvert hljóðfæri, af mismunandi erfiðleikastigi, hver og ein á pdf formi Hljóðskrár (mp3) fyrir allar raddir nema spunaraddir
Útsetningarnar
bottom of page